föstudagur, október 05, 2007

Meira af disknum


hér má sjá forsíðuna á hinum nýja diski. þetta er hannað af mér og Guðmanni Þorvaldssyni, snilingi á Eskifirði. reyndar meira hannað af honum en mér, en ég skannaði inn myndina.

myndin er tekin í ferð sem afi fór með Magna Sveinssyni og fleirum til að heimsækja æskuslóðirnar á Suðurbæjum. ég veit ekki nákvæmlega hvenær ferðin var farin, en trúlega er þetta seinasta heimsókn afa á Gerðistekk. hann er hér að horfa út yfir Barðsnesið og út fjörðinn. gaman hefði verið að vera með í þessari ferð, en á umslagi disksins eru fleiri myndir úr ferðinni.

...við nikkunnar óm

jæja, nú er næstum ár síðan síðasta blogg kom út. ætli sé ekki best að veita dyggum lesendum bloggsins það sem þeir haf beðið eftir.

ég var að ljúka við vinnslu á nýja geisladisknum mínum í síðustu viku. diskurinn heitir ...við nikkunnar óm og inniheldur lög eftir afa minn, Bjarna Halldór Bjarnason. afi samdi nokkur lög á efri árum og árið 2002 voru 10 þeirra gefin út í bók (sem heitir ...sungu við nikkunnar óm) og voru það pabbi og mamma sem gerðu það, við bræður sáum um að skrifa upp lögin og setja þau upp í tölvu. tónskáldið sá um tölvuvinnunna.

ég er lengi búinn að ætla að koma lögunum á disk og lét loksins verða af því nú í sumar, búinn að vera að taka upp af og til síðan í mars. tók m.a.s. helling upp á Bifröst í sumar. síðustu tvær vikur hafa svo farið í að klára síðustu tónana, spila inn fiðlu og eitt lag á nikku (Torvald Gjerde organisti á Egilsstöðum gerði það með stæl), og hljóðblanda. það var Guðjón Skuggi sem hjálpaði mér með það. nú er búið að mastera diskinn og senda umslagið í tölvupósti og þetta er komið úr mínum höndum. áætlaður útgáfudagur er 1. nóv og vona bara að það takist, það á reyndar alveg að sleppa.

veit ekki hvort ég get sett inn myndir og lög á þetta blogg, Stebbi bróðir segir mér kannski til um það, en ég fer nú í það að reyna.

kveð að sinni með því að ausa úr viskubrunni mínum. pólverjar segja statek þegar þeir tala um skip.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Leiðbeiningar

Vek athygli á því að síðasta blogg er í 3 pörtum, af hverju í %!$&#/"%$&!& verð ég alltaf að búta bloggin niður ef þau verða lengri en ramminn á skjánum?

En það verður að lesast í réttri röð, þeas, fyrsti hlutinn kemur neðst.

Long time ......3

Já, síðast en ekki síst, ég sá það að ekki gat ég verið að vera í skóla með því hallærislega nafni Viðskiptaháskólinn á Bifröst (finnst reyndar Samvinnuháskólinn á Bifröst flottara) svo að ég krafðist þess að nafni skólans yrði breytt. Það var lítið mál og hann heitir nú Háskólinn á Bifröst.

Góðar stundir.

...... hélduð þið að ég hefði gleymt mér, nei ekki aldeilis. Pólska hornið er á sínum stað. Í sumar lenti ég á spjalli við hann Árna Dan frænda minn. Hann tjáði mér frá ákveðnu vandamáli sem hann á við að etja..... og einnig tjáði hann mér að sonur hans, hann ManniDan jr. þyrfti nauðsynlega að vita hvernig ætti að segja kjólföt á pólsku. Konan mín (sem bæ ðe vei er pólsk) vissi það ekki, en ég komst að því í orðabókini minni. Orðið er Frak.

Long time ....2

Hitt sem er mér ofarlega í huga er að ég, á gamals aldri, fór að taka upp á þeim ósóma að fara suður til náms, nánar tiltekið í mastersnám í mennta- og menningarstjórnun í Viðskiptaháskólanum á Bifröst (3 í í þessarri setningu).

(Smá innslag. Ég hef rekizt á það ítrekað í mínu námi að men skrifa orðið þessarri ýmizt með einu eða tveimur errum, hvort er rétt?)

Reyndar vakti nærvera mín í þeim skóla töluverð viðbrögð og hafði víðtæk áhrif. Í fyrsta lagi þá hækkuðu þeir skólagjöldin 10mínútum eftir að ég sótti um, fregnir af auði mínum greinilega ekki lengi að berast þarna suður eftir.
Þá þótti þeim ekki nógu fínt að hafa mig í viðskiptadeild og settu námið undir félagsvísindadeild, en það sjá allir í hendi sér að sú deild er mikið mun virtari.
En ekki var ég fyrr búinn að skrá mig en að allir sem einhverju máli skipta í þjóðfélaginu flykktust til Bifrastar til að geta nú sagzt vera með mér í skóla. T.d. er sjálf Túrilla frá Færeyjum samnemandi minn í M&M og Jónína Ben. er eitthvað að væflast þarna líka og það er nú bara toppurinn á ísjakanum.
Að lokum fór svo að rektori fannst sér svo ógnað af nærveru minni að hann sá sér ekki annað fært en að segja upp störfum, treysti sér ekki til að starfa með mér lengur..........

Annars kynntist ég rektori lítið þennan tíma sem ég var á Bifröst, en af því sem ég sá til hans þá er hann ábyggilega fínn kall.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Long time.... 1

Jæja þá er nú komið að því. Langt síðan síðast. Ýmislegt hefur gengið á og gerst síðan ég skrifaði hér síðast, reyndar á ég nú svona frekar von á því að sá harði kjarni sem var farinn að lesa þetta blogg sé lööööööngu hættur að nenna að kíkja hérna til mín. Enda ekki boðið upp á neitt nema einhverjar endakleinur (ef þið viljið fá útskýringu á þessum einkabrandara hafið þá sambandi við skólastjóra Nesskóla, sími 4771124 og biðjið um Malla).

Það sem er mér mest hugleikið þessa dagana er helst tvennt. í fyrsta lagi þá eru að bresta á hinir árlegu stór-jólatónleikar Jólafriður, sem verða haldnir í Eskifjarðarkirkju 17. des. eða á 4.sunnudegi í aðventu. Reyndar er ég að velta því fyrir mér að ef að aðfangadagur er á sunnudegi er hann þá fjórði sunnudagur í aðventu, eða er það sunnudagurinn á undan honum. Ég hef nefnilega alltaf haldið tónleikana á 4. sunnudegi í aðventu, nema kannski núna.
En á tónleikunum verður semsagt einvalalið hljófæraleikara og söngvara og vonandi mikið gaman, mikið stuð. Endilega komið og njótið.

laugardagur, maí 06, 2006

Frauðplastskassaframleiðsla

Varð bara að deila þessu orði með ykkur. Reynið að segja það 5 sinnum í röð hratt.

Reyndar er þetta raunveruleg framleiðsla á frauðplastkössum, sem verið var að lokða á Reyðarfirði og flytja til Dalvíkur.

Segi svo bara dobranoć, eða góða nótt.

föstudagur, apríl 07, 2006

Tóndæmi.

Jæja, kemur annað bloggið á þessu kvöldi, hélt reyndar að ég væri hættur.

En ég var að leika mér í dag að útbúa DVD disk fyrir lítin dreng í Danmörku. Á diskinum verða tónleikar sem haldnir voru í Eskifjarðarkirkju í desember 2005. Hér er lítið tóndæmi af þeim. Það er Svanhvít Aradóttir sem syngur hið hugljúfa sönglag Jóns Ólafssonar Possibillíes manns, Jól.

Hérna er það

Fimmtudagur til ..... (Part 2)

Enn og aftur verð ég að skipta ódauðlegum meistaraverkum mínum í tvo hluta vegna einhverrar vitleysu í bloggkerfinu. Jæja, nenni hvorki að pæla í því eða röfla yfir því. Hér kemur seinni hluti.

Það stendur annars mikið til hjá mér þessa dagana. Ég er ásamt fjórum fínum söngkonum að æfa fyrir tónleika sem við ætlum að halda í Eskifjarðarkirkju á föstudaginn langa. Þetta sagði ég nú líklega líka í síðasta bloggi, en hvað, þetta er manni nú frekar ofarlega í huga núna. Við verðum með prógramm sem mun samanstanda af sænskri tónlist. Þarna verður m.a. flutt Abba tónlist, Roxette, Evert Taube (sem samdi bæði Vorkvöld í Reykjavík og Verst af öllu (er í heimi, einn að búa í Reykjavík) það vissuð þið ekki! Svo náttúrlega hin frábæra Carola, sem verður enn og aftur fulltrúi Svía í Eurovision.

Svo er verið að taka í gegn baðherbergi á heimilinu, karl faðir minn kom um síðustu helgi og setti upp innréttingu þar og nú liggur fyrir að fara að flísaleggja. Vonandi vinnst til þess tími í fríinu í næstu viku.

Í fræðsluhorninu að þessu sinni er orðið łazienka sem þýðir (öllum að óvörum) ........
Já nú læt ég lesendur um að geta.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Fimmtudagur til ... (Part 1)

Til hvers er fimmtudagur?
Mánudagur er til mæðu, þriðjudagur til þrautar, miðvikudagur til (moldar????? af hverju minnir mig það?), fimmtudagur til .... föstudagur til (fjár, eða var það fimmtudagur til fjár?) laugardagur til lukku og sunnudagur til einhvers sem ég man ekki heldur.
Jæja fimm af sjö er ekki sem verst.

Vaknaði í morgun (klár og hress, klæddi mig í föt og sagði bless (úr hvaða lagi?)) og úti var blindbylur. Engin vinna hjá konunni, ekki viðlit að keyra á Reyðarfjörð og aukinheldur enginn skóli hjá börnunum og þarafleiðandi engin vinna hjá mér. Við höfðum það virkilega huggulegt fram eftir morgni, undir sænginni. Góðir svona dagar.

En eftir talsverða tiltekt, bakstur eins fléttubrauðs með kaffinu og lokahandar lagðrar á síðbúna jólagjöf fyrir Stebba litla þá lagðist ég í að kíkja á hina ýmsu tengla af síðu þess ágæta manns (Stebba). Geri það nú stundum en vegna tímaleysis allt of sjaldan.
Byrjaði á Huga, hann er alltaf jafn skemmtilegur og gaman að lesa hann. Hjá Huga prófaði ég ansi skemmtilega svona anagram síðu, fann út að nafni mínu má breyta í Diana Orleans. Það verður héðan í frá mitt listamannsnafn.
Las líka Sigga Óla, hann skrifar oft skemmtilega og er á smá væmnisskeiði þessa dagana. Bara gaman að því.
Svo kíkti ég á Jón Knút sem mér finnst að öðrum ólöstuðum einna skemmtilegasta síðan að lesa. Líka rakst ég inn á síðu hjá henni Halldóru Kristínu sem var einu sinni nokkuð sleip í að blása í þverflautu og þá las ég líka yfir bloggið hans Orra Smárasonar.
Þetta var nú bara nokkuð skemmtileg yfirferð yfir skrif Nobbara, svona ca tíu árum yngri en ég, ég ætla að reyna að gera þetta oftar, og svo á ég enn eftir að prófa nokkra tengla á síðunni hans bróa.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Harmleikur og tónleikur.

Já Stefán minn bara fyrir þig. Hef ekki póstað hér nokkuð lengi en sumir þurfa nú að vinna fyrir sér og hafa ekki endalausan tíma til að leika sér á netinu.

En í gær var ég að lesa frétt (ef frétt skyldi kalla) um manninn sem lést í hræðilegu slysi á Kárahnjúkum um daginn. Blessuð sé minning hans. Þar var greint frá nafni hans og einhvern veginn datt mér strax í hug: "Þetta hefði nú Stebbi bróðir fílað að heita". Nafn mannsins var Eilífur Hammond. Flott nafn það.

En að öðrum og léttari málum. Það eru að koma páskar og páskafrí. Þá verður nú gaman að borða páskaeggin frá börnunum og fara í lambalæri til mömmu á páskadag.
Einnig langar mig til að nefna að á föstudaginn langa kl. 20 ætla ég að vera með tónleika í kirkjunni. Þar ætla 4 frábærar söngkonur að syngja sænska (já ég sagði það) tónlist, Abba, Roxette, Taube ofl. Getur ekki orðið anað en gaman.

En þá segi ég bara bless bless (eins og Stubbarnir), eða eins og Pólverjarnir segja, pa pa

fimmtudagur, mars 02, 2006

Reykjavíkurblús ... blogg

Góða kvöldið.

Nú ligg ég upp í rúmi á fínu gistiheimili í henni Reykjavík. Það heitir gistiheimilið ALBA. Við hjónin erum hér í útréttingum, vorum t.d. í dag að kaupa okkur baðinnréttingu og flísar á kósettið og baðið. Keyptum ein 600 kg af flísum. Gott dagsverk það.

Svo rakst ég á þessa ansi hreint skemmtilegu síðu á netinu, þar er nú mikið af gagnslausum upplýsingum, mér finnst voða gaman af gagnslausum upplýsingum. Síðan er hér. Þarna er m.a. dálítið fjallað um Ísland. Ég er nú ekki búinn að lesa mig alveg í gegnum listann en er nú ekki alveg tilbúinn að kaupa allt sem stendur þarna. En gaman að því samt.

http://www.berro.com/entertainment/general_interesting_facts.htm

Í tilefni af því að ég var að keyra aldraða systur tengdamóður minnar á milli staða í dag má geta þess að á pólsku er hægri prawo og vinstri lewo.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Gleðilegan bolludag (á ekki að segja bollnadag).

Eða eins og danskurinn segir: "Ha' en glædelig bölledag."

Búinn með 4 (reyndar litlar) vatnsdeigsbollur, heimabakaðar með litlum rjóma og bara smá sultu. Á eftir að stúta nokkrum í viðbót.

Bolla á pólsku er bułka og bollodagur dzien bułka

laugardagur, febrúar 25, 2006

Til þessarra landa hef ég komið. Reyndar ekki Jan Mayen en það tilheyrir víst Norvegi og þangað hef ég komið og á vonandi eftir að fara aftur áður en yfir lýkur. Þvílík fegurð.
Síðan hefi ég reyndar bara keyrt á fljúgandi ferð í gegnum Tékkland og gist eina nótt í Prag og gengið um miðbæinn í nokkra klukkutíma. Á vonandi eftir að kíkja betur á það pleis.create your own visited country map
or check our Venice travel guide

Bíll = samochód

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

.....byggir með þér

Var að koma heim eftir að hafa horft á leiðinlegasta fótboltaleik veraldarsögunnar (Benfica-Liverpool). Settist til að pissa fyrir svefninn og teygði mig í Dagskrána. Rak þar augun í ákaflega skemmtilega auglýsingu frá Húsasmiðjunni. Þá vantar afgreiðslumann í timburdeildina. Í auglýngunni segir: "Reynsla (eða þekking, man það ekki) af byggingarvörum æskileg en ekki skilyrði."

Það er nú ekki oft sem ég fer í verslun og ætlast til þess að afgreiðslufólkið hafi vit á því sem það er að versla. En þegar ég fer í byggingarvöruverslanir þá ætlast ég til þess. Ekkert er eins ömurlegt og að tala við afgreiðslufólk í byggingarvöruverslun sem veit ekkert um hvað það er að tala.

Sé líka fyrir mér auglýsingar eins og: "Organisti óskast. Þekking á tónlist æskileg en ekki skilyrði." Og: "Kranamaður óskast. Æskilegt er að viðkomandi hafi próf á krana, en ef engin réttindamaður sækir um verður réttindalaus maður ráðinn."

Jæja, farinn að sofa. Góða nótt, eða dobranoc (held það eigi að vera svona komma fyrir ofan séið, nenni ekki að fara í word og kópípeista það).

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Lestur

Um daginn ráðlagði litli bróðir minn öllum hinum nettengda heimi að lesa bók. Bókin sú heitir Alkemistinn og er eftir portúgalskan karlskrögg að nafni Paulo Coelho (minnir mig á hina frábæru hljómsveit Toto Coello). Fauskur þessi minnir mjög á Peter Gabriel í útliti.

En ekki var það nú útlit ritarans sem ég ætlaði að gera að umfjöllunarefni, heldur skruddan.
Bók þessi hefur verið mærð óspart, Súsanna Svavars hélt hvorki vatni né vindum yfir henni "ein af 10 bestu bókum sögunnar" og svo mætti lengi telja.
Ég er sammála Sússý. Þetta er mjög sennilega ein af 10 bestu, jafnvel 5 bestu bókum sögunnar. Samt er ég bara búinn að lesa hálfa bókina. Málið er bara það að ég skil ekkert um hvað bókin er, og þar af leiðandi hlýtur hún að vera góð. Svona svipað eins og tónlist Peter Gabriel. Hún er svo leiðinleg að hún hlýtur að vera góð (undantekningar 3 lög).
Ég meina hvað er málið, einhver fjárhirðir hittir gamlan kall og gefur honum nokkrar rollur, og fer svo í ferðalag og hittir einhvern Englending og einhverja konu sem hann verður skotin í en vill ekkert með hann hafa.
Ég veit ekki hvort ég nenni að fletta í gegnum afganginn, geri það kannski fyrir Stebba, en loka henni svo og fyllist auðmýkt eins og maður sem hefur litið Guð almáttugan augum og getur ekki höndlað guðdómleikann.

Hins vegar opnaði ég Bettý eftir Arnald í gærkveldi þegar Alkemistinn hafði borið mig ofurliði. Ýmindið (eða Ímyndið) ykkur undrun mína í 18. kafla þegar helvítis lögfræðingurinn var kona!

Minnir mig á gátu eina sem mér var sögð. Hún er svona: Faðir og sonur voru í bíltúr. Þeir keyra ofan í gil og faðirinn deyr. Sonurinn er alvarlega slasaður og er keyrt á sjúkrahús í ofboði. Þegar þangað kemur, tekur læknirinn á móti honum og hrópar strax upp yfir sig: "Nei, þetta er sonur minn!"
Hvernig stendur á því?

Bjór=piwo (segir hann og teygir sig í bjórinn á náttborðinu - Newcastle Brown Ale)

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Ummæli part 2

Það virðist vera að þegar ég skrifa eitthvað sem er meira en það sem passar í gluggann sem kemur til að gera bloggið í, þá vill það ekki koma inn á síðuna. Þessvegna er allt í mörgum pörtum hjá mér.

En önnur furðuleg ummæli eru ummæli Ara Edvalds á mbl.is í gær þar sem hann tjáir sig um mál Sirrýar (Sirrýjar?) en fréttina getið þið lesið á http://mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1184171 nenni ekki að fara nánar út í efni hennar.

En Ari segir: "...er algengt að við ráðum fólk og að við missum fólk. Það er ekki hægt að gera það í bága við aðrar ráðningar," sagði Ari Edwald, forstjóri 365 ljósvakamiðla, þegar hann var spurður um viðbrögð sín við óánægju sjónvarpsstjóra Skjás. Þetta verður skoðað en mér finnst skrýtið að þessu hafi ekki verið teflt fram. Venjan er sú að starfsmaður sem ræður sig í vinnu kynni væntanlegum vinnuveitanda þá stöðu sem uppi er um sína hagi." Feitletrun er mín, og ég vona að þið skiljið þessar setningar betur en ég.

Fyrsta orðið sem ég lærði í pólsku var niezdara en það þýðir klaufi. Ég þurfti mikið að nota það í samtölum við konuna mína.

Ummæli

Ég hef gaman af skemmtilegum tilsvörum, og þá sérstaklega heimskulegum tilsvörum. Mest gaman hef ég þó af því þegar menn segja eitthvað í fjölmiðlum, og halda að þeir séu að segja eitthvað rosa merkilegt en eru samt ekki að segja neitt. Ég rakst á tvö dæmi nýlega.

Á fótbolti.net lætur danskur fótboltamaður hafa eftirfarandi eftir sér (en íþróttamenn eru reyndar óþrjótandi uppspretta innihaldslausra ummæla ("loksins er Fram-liðið farið að spila eins og það sé Framliðið")). En bauninn sagði semsagt: "Ég er vanari þjálfurum og stuðningsmönnum sem vilja að þú spilir þig út úr vandræðunum og að þú sendir á samherja".

Furðulegur fótboltamaður, ekki skrýtið að hann hafi verið seldur. Reyndar er sagan um það skemmtileg því hann var keyptur nú í sumar (til Everton) á 5.000.000 punda (uþb. 600 milljónir króna, litlar). Hann spilaði 1 (einn!) deildarleik með Everton og var seldur til Fiorentina um daginn. Held að hann hafi farið á 2.000.000 punda. Semsagt 360.000.000 kr. í vaskinn hjá Everton á hálfu ári + laun leikmannsins.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Svefn

Við sváfum yfir okkur í morgun. Það var gott (þeas. að sofa, ekki að sofa yfir sig).
Yfirleitt vakna ég þegar konan mín fer í vinnuna (kl.630) en ekki í morgun. Vaknaði ekki fyrr en strákarnir fóru að brölta (voru tveir komnir uppí til mín). Þá var klukkan 815.

Ákvað að hafa þá heima í dag, ég þarf hvort sem er ekki í vinnu fyrr en um hádegi, svo nú sitjum við við (gaman að segja við við) eldhúsborðið og lærum. Ari er að skrifa upp dæmi frá því í gær sem hann gerði ekki nógu vel og Adrian að klippa út myndir úr fréttablaðinu til að skrifa um þær sögu. Rafal er að spila í Geimboj.

Við fengum trommusett í gær, reyndar rafmagnstrommur svo að hávaðinn ærir nú ekki alla í blokkinni. Þeir eru strax farnir að sýna Tommy Lee hæfileika (bíð eftir að þeir fari að draga heim heimskar ljóskur með stór brjóst).

Pólverjar eru vondir, þeir kalla sand piesek en hund piasek (eða öfugt). Þetta hefur valdið mér mikilli sálarangist því ég get ekki munað hvort er hvað.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Tæknin er eitthvað að stríða okkur.

Lenti í smá veseni með bloggið mitt. Var búinn að skrifa það sem er hér að neðan (part 1, 2 og 3) í einu lagi, en gat ekki Publishað því, fékk villumeldingu. Hinsvegar virkaði allt fínt ef ég copyaði því og peistaði í litlum bútum.
Veit einhver afhverju þetta gerist (Stebbi). Eru einhver takmörk á því hvað texti má vera langur?

Á pólsku er geit sagt koza. (Held mig við rauða litinn).

Vegna fjölda áskorana part 3 (þetta er bara orðið eins og Rambó serían)

Annars bara allt gott að frétta, var að koma af flottum húsfundi í blokkinni minni, segi kannsky meira frá því seinna, ætla að fá mér mjólk og kökur og fara in í rúm með tölvuna að horfa á King of Queens (sem ég stal af netinu).

............ Eitt í lokin, ég ætla að prófa að hafa líka svona þema í hverju bloggi, svona fræðsluhorn. Ég ætla að kenna ykkur eitt pólskt orð í hvert skipti, afþví (já ég ætla líka að skrifa afþví, þessvegna, afhverju og fleiri orð sem eitt) að ég er svo góður í pólsku.

Kirkja á pólsku er kościół (ó er borið fram ú og ł er borið fram ú ... tvöfalt ú í endinn) orðið lesist kostsjú eða eitthvað þannig held ég.

Held ég hafi fræðsluhornin mín rauð (kannsky geri ég nýjan lit í hvert skipti). Vá hvað það eru margir möguleikar!

Góða nótt börnin mín.

Vegna fjölda áskorana part 2

Ég var reyndar að laga kommentakerfið mitt, svo nú getur hver sem er komið með lúaleg komment um mig og mína, nafnlaust held ég meira að segja. Ég var búinn að búa til helv... flott kommenntakerfi á einhverri annarri síðu þegar ég fann upp á því hvernig ætti að taka lásinn af hérna, áður voru það bara innskráðir notendur sem gátu kommentað (hey, kannsky ætti ég að hafa mitt "thing" það að skrifa alltaf langar setningar án púnkta og komma).
Nei, geri það ekki en annars megið þið vita að ég mun ætíð skrifa kannsky með ufsíloni, hnetur beygjast hnetur um hnetum frá hnetum til hnetna, og reynt skal að skrifa zetu hvar sem því verður mögulega viðkomið, t.d. í Þýzkaland, verzla og (man ekki fleiri orð en fannst flottara að hafa þau þrjú).

Vegna fjölda áskorana, part1

... jájá allir að missa það yfir fyrsta blogginu mínu, m.a.s. einhver Þorbjörn sem ég þekkekkineitt. Svo ég skrifa þá bara smá hérna.
Ég hef eiginlega ekkert getað sofið undanfarna daga. Spurningin sem ásækir mig er þessi: Hvernig á ég að blogga?
Um hvað á ég að skrifa, á ég að reyna að vera fyndinn, gáfaður (nei best að sleppa því) eða hvað. Stebbi litli bróðir er dáldið góður, dáldið svona eins og fréttaritari útvarps í Árhúsi.
Á ég að koma mér upp einhverjum frösum, eða skíra bloggið einhverju flottu nafni?

fimmtudagur, febrúar 02, 2006