föstudagur, apríl 07, 2006

Tóndæmi.

Jæja, kemur annað bloggið á þessu kvöldi, hélt reyndar að ég væri hættur.

En ég var að leika mér í dag að útbúa DVD disk fyrir lítin dreng í Danmörku. Á diskinum verða tónleikar sem haldnir voru í Eskifjarðarkirkju í desember 2005. Hér er lítið tóndæmi af þeim. Það er Svanhvít Aradóttir sem syngur hið hugljúfa sönglag Jóns Ólafssonar Possibillíes manns, Jól.

Hérna er það

Fimmtudagur til ..... (Part 2)

Enn og aftur verð ég að skipta ódauðlegum meistaraverkum mínum í tvo hluta vegna einhverrar vitleysu í bloggkerfinu. Jæja, nenni hvorki að pæla í því eða röfla yfir því. Hér kemur seinni hluti.

Það stendur annars mikið til hjá mér þessa dagana. Ég er ásamt fjórum fínum söngkonum að æfa fyrir tónleika sem við ætlum að halda í Eskifjarðarkirkju á föstudaginn langa. Þetta sagði ég nú líklega líka í síðasta bloggi, en hvað, þetta er manni nú frekar ofarlega í huga núna. Við verðum með prógramm sem mun samanstanda af sænskri tónlist. Þarna verður m.a. flutt Abba tónlist, Roxette, Evert Taube (sem samdi bæði Vorkvöld í Reykjavík og Verst af öllu (er í heimi, einn að búa í Reykjavík) það vissuð þið ekki! Svo náttúrlega hin frábæra Carola, sem verður enn og aftur fulltrúi Svía í Eurovision.

Svo er verið að taka í gegn baðherbergi á heimilinu, karl faðir minn kom um síðustu helgi og setti upp innréttingu þar og nú liggur fyrir að fara að flísaleggja. Vonandi vinnst til þess tími í fríinu í næstu viku.

Í fræðsluhorninu að þessu sinni er orðið łazienka sem þýðir (öllum að óvörum) ........
Já nú læt ég lesendur um að geta.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Fimmtudagur til ... (Part 1)

Til hvers er fimmtudagur?
Mánudagur er til mæðu, þriðjudagur til þrautar, miðvikudagur til (moldar????? af hverju minnir mig það?), fimmtudagur til .... föstudagur til (fjár, eða var það fimmtudagur til fjár?) laugardagur til lukku og sunnudagur til einhvers sem ég man ekki heldur.
Jæja fimm af sjö er ekki sem verst.

Vaknaði í morgun (klár og hress, klæddi mig í föt og sagði bless (úr hvaða lagi?)) og úti var blindbylur. Engin vinna hjá konunni, ekki viðlit að keyra á Reyðarfjörð og aukinheldur enginn skóli hjá börnunum og þarafleiðandi engin vinna hjá mér. Við höfðum það virkilega huggulegt fram eftir morgni, undir sænginni. Góðir svona dagar.

En eftir talsverða tiltekt, bakstur eins fléttubrauðs með kaffinu og lokahandar lagðrar á síðbúna jólagjöf fyrir Stebba litla þá lagðist ég í að kíkja á hina ýmsu tengla af síðu þess ágæta manns (Stebba). Geri það nú stundum en vegna tímaleysis allt of sjaldan.
Byrjaði á Huga, hann er alltaf jafn skemmtilegur og gaman að lesa hann. Hjá Huga prófaði ég ansi skemmtilega svona anagram síðu, fann út að nafni mínu má breyta í Diana Orleans. Það verður héðan í frá mitt listamannsnafn.
Las líka Sigga Óla, hann skrifar oft skemmtilega og er á smá væmnisskeiði þessa dagana. Bara gaman að því.
Svo kíkti ég á Jón Knút sem mér finnst að öðrum ólöstuðum einna skemmtilegasta síðan að lesa. Líka rakst ég inn á síðu hjá henni Halldóru Kristínu sem var einu sinni nokkuð sleip í að blása í þverflautu og þá las ég líka yfir bloggið hans Orra Smárasonar.
Þetta var nú bara nokkuð skemmtileg yfirferð yfir skrif Nobbara, svona ca tíu árum yngri en ég, ég ætla að reyna að gera þetta oftar, og svo á ég enn eftir að prófa nokkra tengla á síðunni hans bróa.