fimmtudagur, apríl 06, 2006

Fimmtudagur til ... (Part 1)

Til hvers er fimmtudagur?
Mánudagur er til mæðu, þriðjudagur til þrautar, miðvikudagur til (moldar????? af hverju minnir mig það?), fimmtudagur til .... föstudagur til (fjár, eða var það fimmtudagur til fjár?) laugardagur til lukku og sunnudagur til einhvers sem ég man ekki heldur.
Jæja fimm af sjö er ekki sem verst.

Vaknaði í morgun (klár og hress, klæddi mig í föt og sagði bless (úr hvaða lagi?)) og úti var blindbylur. Engin vinna hjá konunni, ekki viðlit að keyra á Reyðarfjörð og aukinheldur enginn skóli hjá börnunum og þarafleiðandi engin vinna hjá mér. Við höfðum það virkilega huggulegt fram eftir morgni, undir sænginni. Góðir svona dagar.

En eftir talsverða tiltekt, bakstur eins fléttubrauðs með kaffinu og lokahandar lagðrar á síðbúna jólagjöf fyrir Stebba litla þá lagðist ég í að kíkja á hina ýmsu tengla af síðu þess ágæta manns (Stebba). Geri það nú stundum en vegna tímaleysis allt of sjaldan.
Byrjaði á Huga, hann er alltaf jafn skemmtilegur og gaman að lesa hann. Hjá Huga prófaði ég ansi skemmtilega svona anagram síðu, fann út að nafni mínu má breyta í Diana Orleans. Það verður héðan í frá mitt listamannsnafn.
Las líka Sigga Óla, hann skrifar oft skemmtilega og er á smá væmnisskeiði þessa dagana. Bara gaman að því.
Svo kíkti ég á Jón Knút sem mér finnst að öðrum ólöstuðum einna skemmtilegasta síðan að lesa. Líka rakst ég inn á síðu hjá henni Halldóru Kristínu sem var einu sinni nokkuð sleip í að blása í þverflautu og þá las ég líka yfir bloggið hans Orra Smárasonar.
Þetta var nú bara nokkuð skemmtileg yfirferð yfir skrif Nobbara, svona ca tíu árum yngri en ég, ég ætla að reyna að gera þetta oftar, og svo á ég enn eftir að prófa nokkra tengla á síðunni hans bróa.

3 ummæli:

Stefán Arason sagði...

Já, það er gaman að fara á Nobbara rúnt. En það var nú líka gaman að fara á rúntinn með kók og nammi! :-) oft og iðulega var það súperkókdós og kartöfluflögur með sýrðum rjóma og lauk...eða eitthvað slíkt...those where the days.

Þorbjörn sagði...

Fimmtudagur er til frægðar, föstudagur til fjár og sunnudagur til sælu.

Daníel Arason sagði...

já kom nú kennarinn og bjargaði mér.