mánudagur, febrúar 27, 2006

Gleðilegan bolludag (á ekki að segja bollnadag).

Eða eins og danskurinn segir: "Ha' en glædelig bölledag."

Búinn með 4 (reyndar litlar) vatnsdeigsbollur, heimabakaðar með litlum rjóma og bara smá sultu. Á eftir að stúta nokkrum í viðbót.

Bolla á pólsku er bułka og bollodagur dzien bułka

laugardagur, febrúar 25, 2006

Til þessarra landa hef ég komið. Reyndar ekki Jan Mayen en það tilheyrir víst Norvegi og þangað hef ég komið og á vonandi eftir að fara aftur áður en yfir lýkur. Þvílík fegurð.
Síðan hefi ég reyndar bara keyrt á fljúgandi ferð í gegnum Tékkland og gist eina nótt í Prag og gengið um miðbæinn í nokkra klukkutíma. Á vonandi eftir að kíkja betur á það pleis.



create your own visited country map
or check our Venice travel guide

Bíll = samochód

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

.....byggir með þér

Var að koma heim eftir að hafa horft á leiðinlegasta fótboltaleik veraldarsögunnar (Benfica-Liverpool). Settist til að pissa fyrir svefninn og teygði mig í Dagskrána. Rak þar augun í ákaflega skemmtilega auglýsingu frá Húsasmiðjunni. Þá vantar afgreiðslumann í timburdeildina. Í auglýngunni segir: "Reynsla (eða þekking, man það ekki) af byggingarvörum æskileg en ekki skilyrði."

Það er nú ekki oft sem ég fer í verslun og ætlast til þess að afgreiðslufólkið hafi vit á því sem það er að versla. En þegar ég fer í byggingarvöruverslanir þá ætlast ég til þess. Ekkert er eins ömurlegt og að tala við afgreiðslufólk í byggingarvöruverslun sem veit ekkert um hvað það er að tala.

Sé líka fyrir mér auglýsingar eins og: "Organisti óskast. Þekking á tónlist æskileg en ekki skilyrði." Og: "Kranamaður óskast. Æskilegt er að viðkomandi hafi próf á krana, en ef engin réttindamaður sækir um verður réttindalaus maður ráðinn."

Jæja, farinn að sofa. Góða nótt, eða dobranoc (held það eigi að vera svona komma fyrir ofan séið, nenni ekki að fara í word og kópípeista það).

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Lestur

Um daginn ráðlagði litli bróðir minn öllum hinum nettengda heimi að lesa bók. Bókin sú heitir Alkemistinn og er eftir portúgalskan karlskrögg að nafni Paulo Coelho (minnir mig á hina frábæru hljómsveit Toto Coello). Fauskur þessi minnir mjög á Peter Gabriel í útliti.

En ekki var það nú útlit ritarans sem ég ætlaði að gera að umfjöllunarefni, heldur skruddan.
Bók þessi hefur verið mærð óspart, Súsanna Svavars hélt hvorki vatni né vindum yfir henni "ein af 10 bestu bókum sögunnar" og svo mætti lengi telja.
Ég er sammála Sússý. Þetta er mjög sennilega ein af 10 bestu, jafnvel 5 bestu bókum sögunnar. Samt er ég bara búinn að lesa hálfa bókina. Málið er bara það að ég skil ekkert um hvað bókin er, og þar af leiðandi hlýtur hún að vera góð. Svona svipað eins og tónlist Peter Gabriel. Hún er svo leiðinleg að hún hlýtur að vera góð (undantekningar 3 lög).
Ég meina hvað er málið, einhver fjárhirðir hittir gamlan kall og gefur honum nokkrar rollur, og fer svo í ferðalag og hittir einhvern Englending og einhverja konu sem hann verður skotin í en vill ekkert með hann hafa.
Ég veit ekki hvort ég nenni að fletta í gegnum afganginn, geri það kannski fyrir Stebba, en loka henni svo og fyllist auðmýkt eins og maður sem hefur litið Guð almáttugan augum og getur ekki höndlað guðdómleikann.

Hins vegar opnaði ég Bettý eftir Arnald í gærkveldi þegar Alkemistinn hafði borið mig ofurliði. Ýmindið (eða Ímyndið) ykkur undrun mína í 18. kafla þegar helvítis lögfræðingurinn var kona!

Minnir mig á gátu eina sem mér var sögð. Hún er svona: Faðir og sonur voru í bíltúr. Þeir keyra ofan í gil og faðirinn deyr. Sonurinn er alvarlega slasaður og er keyrt á sjúkrahús í ofboði. Þegar þangað kemur, tekur læknirinn á móti honum og hrópar strax upp yfir sig: "Nei, þetta er sonur minn!"
Hvernig stendur á því?

Bjór=piwo (segir hann og teygir sig í bjórinn á náttborðinu - Newcastle Brown Ale)

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Ummæli part 2

Það virðist vera að þegar ég skrifa eitthvað sem er meira en það sem passar í gluggann sem kemur til að gera bloggið í, þá vill það ekki koma inn á síðuna. Þessvegna er allt í mörgum pörtum hjá mér.

En önnur furðuleg ummæli eru ummæli Ara Edvalds á mbl.is í gær þar sem hann tjáir sig um mál Sirrýar (Sirrýjar?) en fréttina getið þið lesið á http://mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1184171 nenni ekki að fara nánar út í efni hennar.

En Ari segir: "...er algengt að við ráðum fólk og að við missum fólk. Það er ekki hægt að gera það í bága við aðrar ráðningar," sagði Ari Edwald, forstjóri 365 ljósvakamiðla, þegar hann var spurður um viðbrögð sín við óánægju sjónvarpsstjóra Skjás. Þetta verður skoðað en mér finnst skrýtið að þessu hafi ekki verið teflt fram. Venjan er sú að starfsmaður sem ræður sig í vinnu kynni væntanlegum vinnuveitanda þá stöðu sem uppi er um sína hagi." Feitletrun er mín, og ég vona að þið skiljið þessar setningar betur en ég.

Fyrsta orðið sem ég lærði í pólsku var niezdara en það þýðir klaufi. Ég þurfti mikið að nota það í samtölum við konuna mína.

Ummæli

Ég hef gaman af skemmtilegum tilsvörum, og þá sérstaklega heimskulegum tilsvörum. Mest gaman hef ég þó af því þegar menn segja eitthvað í fjölmiðlum, og halda að þeir séu að segja eitthvað rosa merkilegt en eru samt ekki að segja neitt. Ég rakst á tvö dæmi nýlega.

Á fótbolti.net lætur danskur fótboltamaður hafa eftirfarandi eftir sér (en íþróttamenn eru reyndar óþrjótandi uppspretta innihaldslausra ummæla ("loksins er Fram-liðið farið að spila eins og það sé Framliðið")). En bauninn sagði semsagt: "Ég er vanari þjálfurum og stuðningsmönnum sem vilja að þú spilir þig út úr vandræðunum og að þú sendir á samherja".

Furðulegur fótboltamaður, ekki skrýtið að hann hafi verið seldur. Reyndar er sagan um það skemmtileg því hann var keyptur nú í sumar (til Everton) á 5.000.000 punda (uþb. 600 milljónir króna, litlar). Hann spilaði 1 (einn!) deildarleik með Everton og var seldur til Fiorentina um daginn. Held að hann hafi farið á 2.000.000 punda. Semsagt 360.000.000 kr. í vaskinn hjá Everton á hálfu ári + laun leikmannsins.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Svefn

Við sváfum yfir okkur í morgun. Það var gott (þeas. að sofa, ekki að sofa yfir sig).
Yfirleitt vakna ég þegar konan mín fer í vinnuna (kl.630) en ekki í morgun. Vaknaði ekki fyrr en strákarnir fóru að brölta (voru tveir komnir uppí til mín). Þá var klukkan 815.

Ákvað að hafa þá heima í dag, ég þarf hvort sem er ekki í vinnu fyrr en um hádegi, svo nú sitjum við við (gaman að segja við við) eldhúsborðið og lærum. Ari er að skrifa upp dæmi frá því í gær sem hann gerði ekki nógu vel og Adrian að klippa út myndir úr fréttablaðinu til að skrifa um þær sögu. Rafal er að spila í Geimboj.

Við fengum trommusett í gær, reyndar rafmagnstrommur svo að hávaðinn ærir nú ekki alla í blokkinni. Þeir eru strax farnir að sýna Tommy Lee hæfileika (bíð eftir að þeir fari að draga heim heimskar ljóskur með stór brjóst).

Pólverjar eru vondir, þeir kalla sand piesek en hund piasek (eða öfugt). Þetta hefur valdið mér mikilli sálarangist því ég get ekki munað hvort er hvað.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Tæknin er eitthvað að stríða okkur.

Lenti í smá veseni með bloggið mitt. Var búinn að skrifa það sem er hér að neðan (part 1, 2 og 3) í einu lagi, en gat ekki Publishað því, fékk villumeldingu. Hinsvegar virkaði allt fínt ef ég copyaði því og peistaði í litlum bútum.
Veit einhver afhverju þetta gerist (Stebbi). Eru einhver takmörk á því hvað texti má vera langur?

Á pólsku er geit sagt koza. (Held mig við rauða litinn).

Vegna fjölda áskorana part 3 (þetta er bara orðið eins og Rambó serían)

Annars bara allt gott að frétta, var að koma af flottum húsfundi í blokkinni minni, segi kannsky meira frá því seinna, ætla að fá mér mjólk og kökur og fara in í rúm með tölvuna að horfa á King of Queens (sem ég stal af netinu).

............ Eitt í lokin, ég ætla að prófa að hafa líka svona þema í hverju bloggi, svona fræðsluhorn. Ég ætla að kenna ykkur eitt pólskt orð í hvert skipti, afþví (já ég ætla líka að skrifa afþví, þessvegna, afhverju og fleiri orð sem eitt) að ég er svo góður í pólsku.

Kirkja á pólsku er kościół (ó er borið fram ú og ł er borið fram ú ... tvöfalt ú í endinn) orðið lesist kostsjú eða eitthvað þannig held ég.

Held ég hafi fræðsluhornin mín rauð (kannsky geri ég nýjan lit í hvert skipti). Vá hvað það eru margir möguleikar!

Góða nótt börnin mín.

Vegna fjölda áskorana part 2

Ég var reyndar að laga kommentakerfið mitt, svo nú getur hver sem er komið með lúaleg komment um mig og mína, nafnlaust held ég meira að segja. Ég var búinn að búa til helv... flott kommenntakerfi á einhverri annarri síðu þegar ég fann upp á því hvernig ætti að taka lásinn af hérna, áður voru það bara innskráðir notendur sem gátu kommentað (hey, kannsky ætti ég að hafa mitt "thing" það að skrifa alltaf langar setningar án púnkta og komma).
Nei, geri það ekki en annars megið þið vita að ég mun ætíð skrifa kannsky með ufsíloni, hnetur beygjast hnetur um hnetum frá hnetum til hnetna, og reynt skal að skrifa zetu hvar sem því verður mögulega viðkomið, t.d. í Þýzkaland, verzla og (man ekki fleiri orð en fannst flottara að hafa þau þrjú).

Vegna fjölda áskorana, part1

... jájá allir að missa það yfir fyrsta blogginu mínu, m.a.s. einhver Þorbjörn sem ég þekkekkineitt. Svo ég skrifa þá bara smá hérna.
Ég hef eiginlega ekkert getað sofið undanfarna daga. Spurningin sem ásækir mig er þessi: Hvernig á ég að blogga?
Um hvað á ég að skrifa, á ég að reyna að vera fyndinn, gáfaður (nei best að sleppa því) eða hvað. Stebbi litli bróðir er dáldið góður, dáldið svona eins og fréttaritari útvarps í Árhúsi.
Á ég að koma mér upp einhverjum frösum, eða skíra bloggið einhverju flottu nafni?

fimmtudagur, febrúar 02, 2006